• Heim
  • Fréttir

Páska Bjór Smakk 2020

Hér fyrir neðan má lesa umfjallanir um þá páska bjóra sem ég (Hjörvar Óli) og Viceman smökkuðum í hinu árlega páska bjórsmakki Viceman. Neðst í fréttinni má svo horfa á smakkið í heild sinni.

Páska Púki

Páska Púki

Dokkan á Ísafirði er eitt af yngri brugghúsum landsins, stofnað 2018. Með því að vera fyrsta vestfirska brugghúsið tókst Dokkunni loksins að loka hringnum um landið, þannig að hvar sem fólk er statt á byggðu bóli, er aldrei of langt í næsta brugghús. Páskabjórinn þeirra þetta árið heitir Páska Púki og rataði í Vínbúðirnar, hér er um að ræða svokallaðan California Common, lagerbjór sem gerjaður er við hærra hitastig en gengur og gerist með lagerbjóra, en þetta gerir það að verkum að bjórinn er eins konar blanda af lager og öli (ale) og sýður saman drekkanleika lagers við bragðeiginlega ölsins. Páska Púki er koparlitaður, lyktar af sítrusávöxtum í bland við hafrakextóna úr maltinu, í bragði skilar það sér í maltsætu, smávægilegum ristuðum tónum, og síðan langt, mátulega beiskt eftirbragð í bland við smávægilega vermandi gertóna. Hér er bjór sem táknar vel það millibilsástand sem ríkir yfir páskana, veturinn farinn að hopa og vorið farið að skríða inn.

Sjá meira


Morning Glory

Morning Glory

RVK Brewing er eitt mest spennandi brugghúsið á Íslandi í dag og þeirra framlag í páskabjóraflóruna er í meira lagi sérstakt. Morning Glory er morgunverðar-stout, en hann er bruggaður með Kókópöffsi, hafragrauti, beikoni, pönnukökum, kanadísku hlynsýrópi og uppáhelltu búrundísku baunakaffi frá Kaffi Kvörn og ber því nafn með rentu. Kolsvartur á að líta, með fallegri drappaðri froðu sem læðist ofan á, lyktin minnir á mjólkursúkkulaði og örlítinn reyk, bragðið er sætt og áferðin mjúk, með kaffitónum í bland við súkkulaðið, en kaffið stuðlar einmitt að mátulega þurru eftirbragði svo bjórinn verður aldrei væminn. 

Sjá meira


Er Þetta Hönnun?

Er þetta hönnun?:

Bjór hefur alltaf snúist jafn mikið um menningarlegt samhengi og um drykkinn í glasinu, hvort sem við áttum okkur á því í daglegu lífi eður ei. Þegar allt kemur til alls er bjór öflugt verkfæri til að koma fólki saman og passar þar jafn vel í bakgrunn og forgrunn. Eitt nýlegt dæmi um slíka samkomu var “Rapp, dans og bjór!”, viðburður haldinn á hlaupárskvöldi á Hlemmur Square. Lady Brewery kynntu þar til sögunnar bjórinn Er Þetta Hönnun? annað árið í röð, en hann var fyrst bruggaður fyrir Hönnunarmars 2019 og dregur þaðan nafn sitt, hugmyndin um bjór sem dæmi um hönnun kom víst sumum spánskt fyrir sjónir. Þar sem bjórinn kom út mánuð fyrir páska hefur hann ratað í páskabjórsflokk Vínbúðarinnar og verður því tekinn fyrir sem slíkur. Er Þetta Hönnun? er flokkaður sem Session American Pale Ale (APA) og má því búast við humlatónum sem minna á greni og greipaldin, með þurru og svalandi eftirbragði

Sjá meira


Páska Kaldi

Páska Kaldi


Kaldi býður upp á sína útgáfu af Hefeweizen, hveitibjór að þýskri fyrirmynd, sem einkennist af ljósgulum lit, hárri kolsýru, svalandi drekkanleika og nokkuð sætu bragði, en fáir bjórar fá jafn afgerandi bragð í gerjunarferlinu. Páska Kaldi er þar engin undantekning, bananatónar í bland við negul og “hubba bubba” tyggjó ráða ríkjum í nefi og mæta léttri maltsætu í bland við hveitið, sem gefur smávægilega sýrni til jafnvægis og stuðlar að því að bjórinn hentar einstaklega vel til að svala þorstanum og para við léttan grillmat, nú eða til að drekka á meðan grillað er!

Sjá meira


OMG Súkkulaði Stout

OMG Súkkulaði Stout

Ölvisholt kynnir aftur til sögunnar páskabjórinn OMG Súkkulaði Stout og veldur ekki vonbrigðum frekar en fyrri daginn. Súkkulaði og-vanillubragðinu er náð með samblandi ristaðs malts og kakónibbuhýðis frá Omnom. Góður grunnur styður undir þessa blöndu, en ríkir malttónar minna jafnvel á örlítið ljósari bjór og gefa dýpt í heildina. Mjólkursykur gefur ríka áferð, sætan víkur svo fyrir brenndri kaffibeiskju, eftirbragðið er langt og vermandi. Hér er hugsað fyrir öllu, vandað jafnvægi milli bragðtóna og heildarupplifunin gaumgæfilega íhuguð.

Sjá meira


Páska Álfur

Páska álfur Lager


Álfur Brugghús var stofnað 2018 og skapaði sér sérstöðu strax frá upphafi með því að framleiða bjór bruggaðan með kartöfluhýði sem hafði fram að því verið úrgangur í framleiðsluferlinu. Páskaálfur er þægilegur og auðdrekkanlegur lagerbjór í Vienna Lager-stíl. Hugsa má um Vínarlager sem ljósan lager með örlítið af dekkra malti, svo að léttristaðir hunangstónar fái að njóta sín í bland við blómlega humla, í Páskaálfi bætist svo við langt eftirbragð, svo hann gleymist ekki svo glatt.

Sjá meira


Páska Bjór

Páskabjór Milk Stout


Brothers Brewery í Vestmannaeyjum gefa frá sér Páska Bjór Milk Stout þetta árið, en nafnið er vísun í mjólkursykurinn (laktósa) sem er notaður í bruggferlinu og gefur ríka áferð og sætuvott. Stór og mokkalituð froða lyftir upp tannínríkum kakómassatónum með meðfylgjandi sýrni, kolsýran kröftug og “skrúbbandi” stuðlar að léttri áferð sem gerir þennan bjór afar velkominn sem pörunarfélaga við páskaegg, sérstaklega með rjómakenndu og þekjandi mjólkursúkkulaði. Sönnun þess að mjólkursykur í stout þarf ekki endilega að skila sér í þykkum “leðjubjór” 

Sjá meira



Bönní Bönní Bönní Bönní White Ale

Ægir Brugghús á Granda hefur undanfarin ár boðið upp á mikið úrval gæðabjóra og þorir undirritaður að segja að fá brugghús í þeirra aldursflokki séu jafn fjölhæf þegar kemur að stílum og Ægir. Nöfnin á bjórunum endurspegla þessa sköpunargleði, en Bönní Bönní Bönní Bönní hlýtur að teljast til undarlegri nafna á Íslenskum handverksbjór, og þó er þar úr nógu að velja. BBBB er hveitibjór sem virðist draga jafn mikinn innblástur frá Belgíu og Þýskalandi, en skilur sig frá hvorum tveggja með veglegri viðbót af appelsínusafa, en auk þess að gefa bjórnum ríkulegt appelsínubragð og meðfylgjandi sýrni, þá gerir hann það að verkum að ölið er afar auðdrekkanlegt. Ef þig langar í svar bjórheimsins við mímósu, þá hentar þessi afar vel.

Stubbur


Sjá meira


Súkkulaði Stubbur

Þegar markmiðið er að brugga bjór með súkkulaðibragði eru margar leiðir til að ná því fram. Með Súkkulaði Stubbi sýnir Segull 67 hvernig hægt er að nota ristað malt ásamt mjólkursykri (laktósa) til að kalla fram mjólkursúkkulaðitóna í bland við lakkrís og kaffi, án þess þó að fá út úr því sterkan eða þungan bjór, Stubburinn er ekki nema 4.8% og rennur áreynslulaust niður. Miðinn er hannaður til að minna á páskaegg, og bragðið fylgir því svo sannarlega.

Sjá meira


Hérastubbur

Hérastubbur Páskabjór

Segull 67 á Siglufirði var stofnað 2017 og hefur síðan 2018 boðið upp á bjórinn sinn á dósum. Hérastubbur Páskabjór hentar einmitt vel fyrir þær umbúðir, léttur og bjartur bjór að Bandarískri fyrirmynd. Stíllinn kallast Blonde Ale, en liturinn er djúpgullinn með ljósdrappaðri froðu. Lyktin er létt og leikandi, með milda sítrusávexti og “tyggigúmmi”-tóna  í bland við greni, bragðið sætt framan af, með léttri sýrni sem ýtir undir frískandi eftirbragð, sannur sumarbjór, vonandi verður eitthvað sambærilegt í boði frá Segli á næstu mánuðum þegar hitastigið fer loksins að rísa.

Sjá meira


Páska Tumi

Páska Tumi

Gæðingur hefur aldrei verið þekktur fyrir að gefa frá sér bragðdaufann bjór, og páskabjórinn þeirra er frábært dæmi um það. Páska Tumi er kirsuberja-IPA og skilar sér í marsipani, tannínum og meðfylgjandi beiskju sem vinnur með humlunum bæði í lykt og bragði. Útkoman er veisla fyrir aðdáendur beiskju í allri sinni mynd, flókinn og óhefðbundinn bjór sem hentar vel með mat, til dæmis villibráð.

Sjá meira


Fyrir hönd Viceman þá viljum við óska ykkur gleðilegra páska.

Grein eftir: Hjörvar Óla Sigurðsson


Hjörvar Instagram
Viceman Instagram


Instagram

Nýjar greinar

50 bestu barir í heimi

50 bestu barir í heimi Þann 3 október síðsast liðin var gefið út hvaða barir væru á árlegum lista...

Aðalfundur BCI

Mánudaginn 14 oktober var haldin aðalfundur Barþjóna Klúbbs Íslands BCI  þar sem kosið var í stjórn klúbbsins. Að auki var kosinn nýr...
audio

Jónmundur Þorsteinsson

Happy Hour með The Viceman Jónmundur Þorsteinsson | Hristarinn Jónmundur eða...
audio

Þórhildur Kristín

Happy Hour með The Viceman Þórhildur Kristín Lárentínusardóttir | Hristarinn Þórhildur eða Tóta eins og hún...
audio

Ingi Sigurðsson

Happy Hour með The Viceman Ingi Sigurðsson | Íslandsvinurinn Ingi er Íslendingur að uppruna sem fæddist...